Innlent

Fyrsta barn ársins fimmtán marka stúlka

Fyrsta barn ársins, eftir því sem næst verður komist, fæddist í Hreiðrinu á Kvennadeild Landspítalans í Reykjavík klukkan fimm mínútur yfir eitt í nótt. Það reyndist stúlka og var annað barn foreldra sinna.

Hún vóg 15 merkur, eða 3.760 grömm, og mældist 50 sentímetra löng, og gekk fæðingin í alla staði vel, samkvæmt upplýsingum frá Kvennadeild Landspítalans. Þar hafa tvö börn hafa fæðst það sem af er nýju ári en einnig er vitað um tvö önnur börn sem fæddust í heimahúsum í nótt og í morgun.

Og fyrsti Sunnlendingur ársins var að öllum líkindum stúlka sem kom í heiminn á Sjúkrahúsi Suðurlands á Selfosssi laust upp úr klukkan sex í morgun. Sú var tæpar 20 merkur og 56 sentímetra löng. Á fæðingardeildunum á Akureyri og í Keflavík höfðu engin börn fæðst í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×