Innlent

Töluverðar umferðartafir í borginni í morgun vegna færðar

Snjó kyngdi niður í Vestmannaeyjum í nótt og voru björgunarsveitir kallaðar út til að aðstoða fólk í morgunsárið. Töluverðar tafir urðu á umferð á höfuðborgarsvæðinu í morgun og fimm óhöpp urðu vegna færðar.

Miklar umferðartafir urðu á höfuðborgarsvæðinu í morgun vegna mikillar snjókomu og slæmrar færðar. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir bíl við bíl hafa verið frá Reykjavíkurvegi í Hafnarfirði til Reykjavíkur. Fimm óhöpp má rekja beint til færðarinnar og lentu meðal annars strætisvagn og grafa saman í Lækjargötu af þeim sökum. Snjóruðningsmenn hafa þó verið að störfum á höfuðborgarsvæðinu síðan í nótt.

Lögregla segist ekki verða vör við að margir bílar séu vanbúnir, en segir að nokkuð beri á að fólk skafi ekki af rúðum og ljósum og það geti skapað mikla hættu.

Árrisulir Eyjamenn lentu í vandræðum í morgun eftir gríðarlega snjókomu sem er fátítt í Vestmannaeyjum. Björgunarsveit var kölluð út til að aðstoða fólk á ferð.

Björgunarsveitarmenn aðstoðuðu líka fólk á Suðurnesjum í gærkvöldi, einkum í Grindavík, fram yfir miðnætti. Þá snjóaði töluvert á Selfossi og þar í grennd í nótt og er þæfingur á götum og vegum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×