Innlent

Landeigendur vænta nýs útspils frá fjármálaráðherra

Landsamtök landeigenda vænta þess að fjármálaráðherra mæti til leiks með nýtt útspil af hálfu ríkisins í átt til samkomulags í deilunni við landeigendur, ekki síst í ljósi þess að núna fyrir lok febrúarmánaðar birtir ríkisvaldið þjóðlendukröfur sínar á vestanverðu Norðurlandi svokölluðu svæði 7.

Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra hefur þegið boð stjórnar Landssamtaka landeigenda á Íslandi um að koma á aðalfund samtakanna sem hefst á Hótel Sögu kl. 15:00 á fimmtudaginn kemur, 14. febrúar.

Ráðherra fjallar þar um stöðu þjóðlendumála af sjónarhóli ríkisvaldsins. Þá mun Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður flytja fundarmönnum erindi um afréttar-málefni fyrir dómstólum.

Í tilkynningu frá samtökuinum segir að það fylgir sögu að í desember 2007 fór fjármálaráðherra fram á það við óbyggðanefnd að skipta svæði 7 í tvennt og taka einungis syðri hluta þess fyrir nú.

Óbyggðanefnd samþykkti erindið og því mun ríkið lýsa kröfum á svæði sem í megindráttum markast af Fnjóská í austri, að norðan af Hörgárdal og Öxnadal og Öxnadalsheiði í Eyjafirði, og Norðurárdal og Norðurá í Skagafirði en vestan þess af norðurmörkum Eyvindarstaðaheiði og Blöndu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×