Innlent

Flutti þrisvar tillögu um siðareglur þingmanna

Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra flutti í þrígang tillögu á Alþingi um að settar yrðu siðareglur þingmanna - á meðan hún sat í stjórnarandstöðu. Sautján ár eru síðan Norðmenn settu slíkar reglur fyrir sína þingmenn.

Landsbankinn færði ráðherrum rauðvínsflösku að gjöf fyrir jólin. Fréttastofu Stöðvar 2 er ekki kunnugt um hvort slíkar gjafir til ráðherra tíðkist en til að tryggja að gjafir veki ekki tortryggni hafa þjóðþing víða í nágrannalöndum okkar sett skýrar siðareglur. Ekki hér.

Jóhanna Sigurðardóttir hefur þrisvar flutt þingsályktunartillögu frá árinu 2001 um nauðsyn þess og í þeirri síðustu er lagt til að forsætisnefnd móti siðareglur með hliðsjón af siðareglum annarra þjóðþinga.

Í greinargerð með tillögunni kemur fram að þingmenn í Noregi, Danmörku og Svíþjóð ráði því hvort þeir skrifi undir siðareglur þinganna. Norðmenn voru fyrstir til og settu sínar reglur fyrir sautján árum en meirihluti þingmanna í þessum þremur Norðurlöndum hefur sjálfviljugur gengist undir reglurnar.

Reglurnar felast meðal annars í því að upplýsa um stjórnunarstöður þingmanna í fyrirtækjum, önnur launuð störf en þingmennskuna, eignir í félögum og í Danmörku ber þingmönnum að greina frá „dýrum gjöfum sem tengjast starfinu og fara yfir 2000 danskar krónur að verðgildi". Sem jafngilda um 25 þúsund íslenskum.

Þess má geta að þótt Alþingi Íslendinga hafi ekki sett sér siðareglur þá hefur Ríkisendurskoðun gert það svo þeir séu óháðir ráðuneytum sem þeim beri að endurskoða. Í þeim segir meðal annars að starfsmenn skuli varast að þiggja gjafir frá þeim sem hafa hagsmuna að gæta vegna endurskoðunarstarfa þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×