Innlent

Nærri 30 ára gamalt mjólkurframleiðslumet slegið rækilega

Þær hafa gefið vel af sér í ár, íslensku kýrnar.
Þær hafa gefið vel af sér í ár, íslensku kýrnar. MYND/GVA

Nærri 30 ára gamalt met í mjólkurframleiðslu var slegið á síðasta ári þegar 126 milljónir lítra af mjólk voru framleiddar.

Fram kemur á vef Landssambands kúabænda að innvigtun til mjólkursamlaga innan Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði hafi verið um 124,8 milljónir lítra en við það bætist mjólk sem framleidd eru utan samtakanna. Gamla framleiðslumetið var um 120 milljónir lítra sem sett var árið 1978.

Bent er á að framleiðsla mjólkur hafi aukist um rúmlega fimmtung á sjö árum en á sama tíma hefur framleiðendum fækkað úr 1040 árið 2000 niður í 750 á nýliðnu ári, eða um 28 prósent. Framleiðsla á hverju búi hefur því aukist úr réttum 100 þúsund lítrum í 168 þúsund lítra eða um 68 prósent.

Indverjar mesta mjólkurframleiðsluþjóðin

Á vef Landssambands kúabænda er bent að Alþjóðasamtök mjólkuriðnaðarins hafi áætlað framleiðsluna hjá 55 stærstu mjólkurframleiðsluþjóðunum. Samkvæmt þeirri áætlun var framleiðslan þar 551 milljón tonna árið 2007, eða tæplega 13 prósentum meiri en árið 2000.

Mesta mjólkurframleiðsluríki heims er Indland með nærri 95 milljónir tonna en þar á eftir koma Bandaríkin með tæpar 83 milljónir tonna. Í þriðja sæti er Kína með 36 milljónir tonna en þar hefur mjólkuframleiðslan aukist um nærri 330 prósent á sjö árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×