Enski boltinn

Naumur sigur hjá United

Carlos Tevez bauð upp á snuddufagn eftir að Ronaldo lagði mark hans upp með laglegum hætti
Carlos Tevez bauð upp á snuddufagn eftir að Ronaldo lagði mark hans upp með laglegum hætti NordicPhotos/GettyImages

Staðan á toppi ensku úrvalsdeildarinnar breyttist ekki í dag þegar toppliðin þrjú unnu leiki sína. Þau voru þó ekki öll jafn sannfærandi.

Arsenal vann nokkuð öruggan sigur á grönnum sínum í West Ham þar sem mörk þeirra Eduardo og Adebayor í fyrri hálfleik tryggðu sigurinn. Arsenal hefur því enn tveggja stiga forystu á toppi deildarinnar. Freddie Ljungberg var í byrjunarliði West Ham gegn sínum gömlu félögum, en var borinn meiddur af velli á 37. mínútu.

Manchester United vann 1-0 sigur á Birmingham á heimavelli með marki frá Carlos Tevez, en ekki er hægt að segja að sigurinn hafi verið sérlega glæsilegur. Birmingham sótti hart að marki United undir lokin en varð að sætta sig við tap.

Reading þurfti að sætta sig við 2-0 tap gegn Portsmouth á heimavelli eftir að hafa spilað með 10 menn frá fjórðu mínútu. Ibrahima Sonko var rekinn af velli fyrir að brjóta á Benjani, en Niko Kranjcar náði ekki að skora úr vítaspyrnunni sem dæmd var í kjölfarið.

Varnarmaðurinn Sol Campbell kom Portsmouth skoraði fyrsta mark leiksins eftir skelfileg mistök frá Marcus Hahnemann í marki Reading og það var svo John Utaka sem tryggði gestunum enn einn útisigurinn með marki á 66. mínútu. Miðverðirnir Ívar Ingimarsson og Hermann Hreiðarsson stóðu vaktina hjá liðunum í dag og spiluðu allar 90 mínúturnar.

Loks vann Everton 2-0 útisigur á Middlesbrough þar sem Andy Johnson og James McFadden gerðu út um leikinn á fimm mínútna kafla um miðbik síðari hálfleiksins. Everton hefur aðeins tapað tveimur af síðustu 17 leikjum sínum en Middlesbrough heldur áfram að valda vonbrigðum á heimavelli sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×