Erlent

Frönskum dátum í Afganistan fjölgar

Nicolas Sarkozy.
Nicolas Sarkozy.

Nicolas Sarkozy, Frakklandsforseti, lýsti því yfir í dag að Frakkar hyggðust senda fleiri hermenn til Afganistan til þess að styðja við aðgerðir NATO í landinu. Sarkozy er í opinberri heimsókn á Bretlandi sagði í dag að formlega yrði tilkynnt um fjölgunina á næsta NATO fundi sem fram fer í Búkarest í næstu viku.

Bretar og Bandaríkjamenn hafa ítrekað kallað eftir því að aðrir meðlimir NATO fjölgi í liðsafla sínum í landinu en hingað til hafa þær bænir fengið heldur dræmar undirtektir, ekki síst frá Frökkum. 43 þúsund hermenn eru nú frá NATO í landinu og þar af eru rúmlega 1500 þeirra franskir.

Sarkozy sagði ekki hve marga hermenn stæði til að senda en hann sagði mikilvægt að koma í veg fyrir að Talíbanar nái aftur völdum í landinu. Samkvæmt heimildum BBC setur Sarkoxy þó nokkur skilyrði við fjölguninni. Hann vill að Afgönum sjálfum verði falin meiri ábyrgð auk þess sem hann krefst þess að betri stjórn verði komið á borgarlega þætti uppbyggingarstarfsins sem fram fer í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×