Enski boltinn

Poyet: Það var rétt að reka okkur

NordicPhotos/GettyImages

Gus Poyet, fyrrum aðstoðarstjóri Tottenham, segir að stjórn félagsins hafi gert rétt með því að láta hann og Juande Ramos fara á sínum tíma.

Liðið var gjörsamlega heillum horfið undir stjórn þeirra Ramos og Poyet og sat á botninum þegar Harry Redknapp var ráðinn til starfa í þeirra stað. Hann var fljótur að snúa dæminu við og er liðið taplaust undir hans stjórn.

"Ef við lítum á úrslitin sem liðið var að ná og skoðum þetta hreinskilnislega, þá tók stjórnin rétta ákvörðun að láta okkur fara. Þegar stjórar eru reknir eftir 10 leiki snýst það ekki endilega um breytingar á leikskipulagi, heldur þarf að knýja fram úrslit og fá ferska vinda inn í liðið. Það tókst hjá Harry og hann hefur staðið sig vel," sagði Poyet í samtali við Sky.

Damien Comolli, sem einnig var rekinn frá félaginu sem yfirmaður knattspyrnumála, segist hinsvegar yfir sig ánægður með það starf sem hann vann hjá félaginu.

"Mér gekk einstaklega vel í tíð minni hjá Tottenham og fékk mikið út úr starfi mínu. Ég varð fyrir nokkurri gagnrýni og pressan var mikil, en við náðum í Evrópukeppni þrjú ár í röð þegar ég var þarna. Það hafði ekki gerst mjög lengi. Við unnum líka bikar og lögðum Chelsea og Arsenal á leið okkar þangað. Það var mjög jákvætt - okkur gekk mjög vel," sagði Comolli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×