Innlent

Eitt til tvö íslensk börn ættleidd á ári

Bragi Guðbrandsson, forstöðumaður Barnaverndarstofu.
Bragi Guðbrandsson, forstöðumaður Barnaverndarstofu.

Eitt til tvö íslensk ungabörn eru ættleidd á ári hverju og þá gjarnan af skyldmennum. Aftur á móti eru allt að tuttugu börn ættleidd frá útlöndum á hverju ári.

Íslenskt barn er oft ættleitt af einhverjum sem móðirin þekkir til og í samræmi við hennar óskir, að sögn Braga Guðbrandssonar, forstöðumanns Barnaverndarstofu.

Bragi segir að frumættleiðingar ungra íslenskra barna heyri nánast til undantekninga, séu kannski ein til tvær á ári. Margar ástæður séu þar að baki, þar á meðal tilkoma velferðarkerfisins. Nú sé til dæmis mun sjaldgæfara en áður að börn fæðist inn í örbirgð auk þess sem nú til dags séu til getnaðarvarnir sem geri fólki kleift að stjórna barneignum.

„Börn sem koma óvelkomin í heiminn eru mun færri en áður,“ segir Bragi og bendir á að fyrir allmörgum árum hafi fóstureyðingarlöggjöfinni verið breytt þannig að meira tillit sé nú tekið til aðstæðna kvenna.

Á fyrri hluta síðustu aldar átti fólk þess ekki kost að stjórna barneignum og því áttu mæður ekki annarra kosta völ en að láta börn frá sér sökum fátæktar og óöryggis í afkomu. Bragi telur að konur hafi ekki mætt fordómum heldur frekar skilningi í samfélaginu. Þannig sé það enn.

Um 4.500 börn fæddust á Íslandi árið 2007. Frumættleiðingar barna tíu ára og yngri voru 33 talsins frá 1990 til 2007, þar af voru fimmtán börn yngri en eins árs og sex börn voru á öðru ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×