Innlent

Samningar gera lítið úr menntun kennara

Formaður efnahags- og skattanefndar segir nýgerða kjarasamninga grunnskólakennara gera lítið úr kennaramenntun.

Grunnskólakennarar skrifuðu í gær undir kjarasamninga við sveitarfélögin þar sem kveðið er á um allt að 23 prósenta launahækkun. Þar af hækka grunnlaun kennara um 25 þúsund krónur á mánuði frá og með 1. júní næstkomandi.

Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir hækkanir kennara almennt umfram það sem gengur og gerist á markaði og býst hann við að aðrar starfstéttir komi til með að taka mið af þessum samningum.

Kostnaður sveitarfélaganna við samninginn nemur um 1,2 milljörðum króna á þessu ári og segir Pétur að stærri sveitarfélög séu eflaust í stakk búin til að mæta þessum kostnaði, en smærri sveitarfélög gætu hins vegar lent í vandræðum. Hann undrast hins vegar að ekki er gert meira úr virði kennaramenntunar í samningunum. Segir hann muninn milli menntaðra og ómenntaðra kennara of lítinn, þannig að í raun borgi sig ekki fyrir kennara að mennta sig. Fyrst sveitarfélögin greiði svo háar upphæðir í launakostnað til kennara, fái þeir mun meira fyrir peninginn séu kennarar betur menntaðir.

Pétur segir launahækkunina enn meiri þegar litið er til þess hvaða áhrif þær hafa á lífeyrisgreiðslur sem koma til með að hækka til muna. Sá kostnaður sé stórlega vanmetinn.

 Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×