Innlent

Landhelgisgæslan bjargaði svöngum hrossum ofan af fjallstindi

Breki Logason skrifar
Þyrla Landhelgisgæslunnar stóð sig vel í leiðangrinum.
Þyrla Landhelgisgæslunnar stóð sig vel í leiðangrinum.

„Þetta gekk svo vel að ég átti ekki til orð, þessir menn eru þvílíkir snillingar," segir Viðar Pálsson bóndi í Fljótshlíðinni um frækilegt björgunarafrek Landhelgisgæslunnar í vikunni.

Verið var að reka nokkur hross úr sveitinni heim þegar þau þustu í skyndi upp á fjallið Þríhyrning. Hrossin höfðu ekki fengið að éta í nokkurn tíma og höfðu bændur því áhyggjur af hrossunum sem fóru alla leið upp á topp fjallsins.

„Við fórum upp á fjórhjólum og snjósleðum," segir Viðar en bændurnir komust ekki upp á topp á fjallinu. Því var haft samband við Lögregluna á Hvolsvelli sem í samvinnu við Landhelgisgæsluna fékk þyrlu til að aðstoða við að ná hrossunum niður.

„Það stóð yfir æfingaflug hjá okkur þegar við fengum þessa beiðni frá þremur bændum þarna í sveitinni. Menn höfðu áhyggjur af svelti og veðri og var meiningin að ferja þessar bændur upp á fjall til þess að ná hrossunum niður," segir Georg Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar um björgunarafrekið.

Þegar þyrlan kom upp á topp fóru hrossin sjálf niður sem var merkileg sjón að sögn Viðars bónda. „Þessir snillingar ráku þau bara niður og við þurftum ekki að gera neitt."

Að sögn Georgs Lárussonar fær Gæslan af og til beiðnir um aðstoð vegna dýra í sjálfheldu, og hafa þeir meðal annars farið í björgunarleiðangra tengda sauðfé.

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra á sumarbústað í Fljótshlíðinni og þar að auki einn hest að sögn Viðars. Sá hestur var þó ekki í hópnum sem bjarga þurfti af fjallinu en þekkir vafalaust til óþekktarormanna sem stukku upp á Þríhyrning á fastandi maga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×