Innlent

Sakaður um að flytja fé af reikningum fjárvana flugfélags

Rúnar Árnason forstjóri flugfélagsins City Star Airlines í Arberdeen er sagður hafa skipað starfsfólki sínu að flytja fé af reikningum félagsins til Íslands skömmu áður en það lagði upp laupana.

Í frétt af málinu í skoska blaðinu The Press and Journal í dag er greint frá því að Rúnar hafi skipað starfsfólki sínu að millifæra 68 þúsund pund eða tæplega 9 milljónir króna inn á reikninga systurfélags City Star Airlines annarsvegar og móðurfélagsins á Íslandi City Star Holdings. hinsvegar

Færslurnar áttu sér stað þann 25. janúar en 30. janúar hætti flugfélagið starfsemi sinni. Að sögn blaðsins hefur það undir höndunum tölvupóst frá Rúnari til starfsfólks síns þar sem þetta kemur fram. Starfsfólkið hefur áhyggjur af launagreiðslum sínum fyrir janúar.

Samkvæmt Loftfaraskrá Íslands er City Star Airlines skáð sem umráðandi fjögurra Dornier véla hérlendis. Samkvæmt frásögn skoska blaðsins hefur félagið leigt þær vélar af móðurfélaginu City Star Holdings fyrir 30 þúsund pund á mánuði en í janúar var sú upphæð hækkuð í 100.000 pund eða yfir 13 milljónir kr.

Blaðið náði ekki tali af Rúnari Árnasyni en bróðir hans Atli Árnason sem er forstjóri City Star Holdings segir í samtali við The Press and Journal að þeir hafi nægt fé til að endurvekja flugfélagið og að starfsfólk muni fá borguð laun sín nú í byrjun febrúar.

Yfir 50 manns misstu vinnuna er flugfélagið hætti rekstri og fjárfestar telja sig hafa tapað milljón pundum á félaginu eða rúmlega 130 milljónum kr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×