Fótbolti

Við erum ekki eins og Borat!

Fígúran Borat dregur upp ranga mynd af Kasakstan að mati landsliðsþjálfarans
Fígúran Borat dregur upp ranga mynd af Kasakstan að mati landsliðsþjálfarans

Bernd Storck, landsliðsþjálfara Kasakstan, hlakkar mikið til að mæta enska landsliðinu á Wembley á morgun. Hann segir sína menn leggja mikið upp úr leiknum og virðist vera orðinn mjög þreyttur á Borat-bröndurum.

Flestir reikna með því að enska liðið vinni öruggan sigur á Kasakstan á morgun, en liðið hefur unnið báða leiki sína til þessa í undankeppni HM.

Landsliðsþjálfari Kasakstan hefur varað leikmenn sína við því að falla í stafi þegar þeir sjá stjörnurnar í enska liðinu.

"Ef leikmenn mínir ætla að fara að skiptast á treyjum við menn eins og Beckham og Rooney strax eftir að flautað er af - munu þeir missa sæti sitt í liðinu. Ég get keypt treyjur handa þeim sjálfur ef þá vantar þær," sagði landsliðsþjálfarinn.

Hann er orðinn hundleiður á því að fólk sjái Kasakstan með sömu augum og breski grínistinn Sacha Baron Cohen, sem kom landinu í fréttirnar á röngum forsendum með kvikmynd sinni um blaðamanninn Borat.

"Þessi Borat mynd er bull og hefur ekkert með Kasakstan að gera," sagði Storck. "Hún dregur upp ranga mynd af þjóðinni. Við erum alvarleg þjóð og viljum ekki láta tengja okkur við þessa mynd."

Ekki er hægt að segja að Kasakstan sé á öðrum endanum vegna leiksins stóra á morgun.

"Það koma ekki út nema tvö eða þrjú dagblöð í viku og fólk fréttir lítið af fótbolta. Leikur okkar við Króata var ekki einu sinni sýndur í sjónvarpinu. Ég er hræddur um að fólk myndi ekki einu sinni frétta af því þó við næðum hagstæðum úrslitum á móti Englendingum, en ég vona að fleiri fari að mæta á leiki okkar," sagði þjálfarinn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×