Innlent

Tillitslausir blaðaljósmyndarar veitast að Björk

Björk Guðmundsdóttir verður fyrir miklu áreiti eins og margar aðrar stórstjörnur.
Björk Guðmundsdóttir verður fyrir miklu áreiti eins og margar aðrar stórstjörnur.

Frekustu ljósmyndarar vaða að Björk, öskra að henni og áreita jafnvel dóttur hennar, segir Guðmundur Gunnarsson, faðir Bjarkar. Ný-sjálensk blöð hafa greint frá því að Björk hafi veist að blaðamanni við komuna til Auckland á Nýja-Sjálandi, þar sem hún mun koma fram á tónlistarhátíð.

Guðmundur Gunnarsson segir að þennan atburð megi skýra með því hversu ágengir og tillitslausir blaðaljósmyndanrar geti verið. „Þetta er stundum bara eins og líkamsárás og sumir þessara manna kunna bara enga mannasiði," segir Guðmundur. Hann segir að ljósmyndarar séu sífellt að fara fram á það að hún stilli sér upp fyrir myndatöku, fari jafnvel úr einhverjum yfirhöfnum og að dóttir hennar stilli sér upp með henni.

„Björk er bara þannig gerð að hún hefur aldrei viljað vera með lífvörð með sér eins og þessar stærri stjörnur eru með. Það er því enginn til að ryðja veginn fyrir hana," segir Guðmundur í samtali við Vísi. Hann segir jafnframt að starfsfólk Bjarkar hafi ekki verið með henni þegar hún kom til Nýja Sjálands og því hafi hún verið alveg óvarin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×