Innlent

Handvömm að ráðherra fundaði ekki með nefnd fyrir Búkarestferð

MYND/Anton

Handvömm virðist hafa ráðið því að utanríkisráðherra fundaði ekki með utanríkismálanefnd Alþingis áður en hún hélt á leiðtogafund Atlantshafsbandlagsins í Búkarest í dag. Þetta sagði Árni Páll Árnason, varaformaður utanríkismálanefndar á Alþingi.

Steingrímur J. Sigfússon, fulltrúi Vinstri - grænna í nefndinni, kvaddi sér hljóðs á þingfundi og benti á að hann hefði á mánudag óskað eftir fundi í nefndinni með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra áður en hún færi til Búkarest. Þar myndi hún skýra frá því hvaða sjónarmið hún og forsætisráðherra færu með fyrir Íslands hönd á NATO-fundinn.

Þessum fundi utanríkismálanefndar hefði ekki verið unnt að koma við og þegar fundur utanríkismálanefndar hafi verið haldinn í morgun hafi Ingibjörg Sólrún og Geir verið farin af landi brott með flugvél eins frægt væri orðið.

Gagnrýndi Steingrímur að utanríkismálanefnd hefði verið sniðgengin í málinu, en óvenjumörg og óvenjustór mál væru á dagskrá NATO-fundarins í Búkarest. Nefndi Steingrímur meðal annars aðild Georgíu og Úkraínu að bandalaginu, eldflaugavarnarkerfi Bandaríkjanna og stöðuna í Afganistan í því samhengi. Sagði Steingrímur ráðherra hafa hunsað lögbundna samráðsskyldu sína við utanríkismálanefnd.

Árni Páll Árnason, varaformaður utanríkismálanefndar og flokksbróðir utanríkisráðherra, sagði rétt að Steingrímur hefði óskað eftir fundi í nefndinni áður en leiðtogafundur NATO hæfist. Sagðist hann undirstrika að utanríkisráðherra hefði markað stefnu um aukið samráð við utanríkismálanefnd og vildi rækja það með virkum hætti. Hér virtist hins vegar hafa orðið handvömm.

Sagði hann ekki æskilegt að utanríkisnefnd skyldi ekki upplýst um stefnumörkun ríkisstjórnar fyrir fundi eins og fund NATO. Batt hann vonir við að ráðherra myndi funda með utanríkismálanefnd þegar heim væri komið.

Í svipaðan streng tók Ragnheiður Elín Árnadóttir, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í utanríkismálanefnd. Hún sagðist taka undir með Steingrími J. Sigfússyni að utanríkisráðherra hefði átt að koma á fund nefndarinnar. Það hlyti að vera sá háttur sem horft skyldi til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×