Innlent

Setur reglugerð um þátttöku TR í kostnaði vegna bæklunarlækna

MYND/Anton

Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra hefur sett reglugerð um greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar ríkisins vegna þjónustu sjálfstætt starfandi bæklunarlækna sem eru án samninga.

Eins og fram kom í fréttum í fyrradag runnu samningar við læknana út um mánaðamótin án þess að um semdist um nýja samninga. Með ákvörðun ráðherra er ætlunin að tryggja stöðu sjúkratryggðra með sérstakri reglugerð. Reglugerðin gildir til og með 31. maí og samkvæmt henni er tilvísun frá öðrum lækni ekki skilyrði fyrir endurgreiðslu TR á kostnaði vegna þjónustu bæklunarlækna. Sjúkratryggður einstaklingur greiðir þjónustu viðkomandi sérfræðings að fullu og getur síðan sótt um endurgreiðslu hjá TR samkvæmt gjaldskrá sem fylgir reglugerðinni.

„Enn er í gildi samningur Læknafélags Reykjavíkur (LR) og TR um greiðslu fyrir einnota efni og áhöld vegna aðgerða sem sjúkratryggðir einstaklingar gangast undir utan sjúkrahúsa. Þá eru einnig í gildi samningar við tilgreinda bæklunarlækna vegna krossbandaaðgerða á hnjám. Sjúklingar þurfa því hvorki að leggja út fyrir efniskostnaði né greiða kostnað vegna krossbandaaðgerða umfram hlutdeild hins sjúkratryggða skv. reglugerð nr. 1265/2007.

Sérgreinalæknar sem hafa falið LR samningsgerð fyrir sína hönd hafa þegar samið við samninganefnd heilbrigðisráðherra og gildir sá samningur til 31. mars 2010. Sérstök reglugerð vegna þjónustu þeirra er því ekki nauðsynleg. Auk bæklunarlækna er enn ósamið við hjartalækna og barnageðlækna. Samninganefnd heilbrigðisráðherra á í viðræðum við fulltrúa þeirra og er stefnt að niðurstöðu í þessum mánuði," segir í tilkynningu heilbrigðisráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×