Innlent

Engin hætta á ferðum þegar Fokker hætti við lendingu

MYND/Vilhelm

Fokker flugvél frá Flugfélagi Íslands þurfti að hætta við lendingu á Ísafirði í dag eftir að flugstjórinn hafði gert tvær tilraunir til að lenda vélinni. Miklar vindhviður á brautinni komu í veg fyrir að hægt væri að lenda en innanborðs var skíðafólk frá Akureyri. Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands segir að engin hætta hafi verið á ferðum en að aðstæður hafi verið heldur óvenjulegar.

„Þetta var allt innan eðlilegra marka," segir Árni Gunnarsson, „Þegar hann kemur niður á brautina eru vindmörk innan eðililegra marka en þegar til kastana kemur nær hann ekki að stabílisera vélina til að ná að lenda henni."

Árni segir að flugmaðurinn hafi þá lyft vélinni á ný og ákveðið að reyna aðra lendingu. Þá hafi vinhviður einnig komið í veg fyrir lendingu og því hafi verið ákveðið að snúa vélinni til Reykjavíkur. „Þetta er ekki óvenjulegt en það má segja að í þetta skiptið hafi vélin verið komin óvenju neðarlega þegar hætt var við lendinguna.“

Að sögn Árna var fólkið um borð í vélinni rólegt á meðan á þessu stóð og að flumaður og flugfreyja hafi strax veitt nauðsynlegar upplýsingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×