Erlent

Bush styður umsókn Úkraínu að Nato

George Bush Bandaríkjaforseti.
George Bush Bandaríkjaforseti. MYND/AFP

George Bush Bandaríkjaforseti hefur lýst yfir stuðningi að inngöngu Úkraínu í Nato. Forsetinn lýsti þessu yfir í heimsókn til höfuðborgarinnar Kiev. Úkraína hefði tekið djarfa ákvörðun að sækja um aðild og að Bandaríkin styddu landið heilshugar.

Á fundi með blaðamönnum þar sem Bush sat við hlið Viktor Yushchenko forseta Úkraínu sagði hann að hann myndi þrýsta á um aðild Úkraínu og Georgíu.

Rússar eru alfarið á móti því að bandalagið stækki til austurs. Grigory Karasin aðstoðarutanríkisráðherra sagði í Dúmunni, neðri deild rússneska þingsins, að aðild Úkraínu myndi leiða af sér mikla krísu í samskiptum landanna. Hann sagði að Úkraína yrði nokkurs konar höggdeyfir milli Evrópu og Rússlands. Vesturlönd yrðu að velja á milli þar sem krísan myndi einnig hafa áhrif á öryggi Evrópu.

Francois Fillon forsætisráðherra Frakklands virtist sammála rússnesku niðurstöðunni í útvarpsviðtali í morgun.

Við teljum að þetta sé ekki gott svar við jafnvægi valda í Evrópu og milli Evrópu og Rússlands, var haft eftir honum á BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×