Innlent

Fagna ákvörðun um að leita álits á peningastefnunni

Viðskiptaráð Íslands fagnar ákvörðun Geirs H. Haarde, forsætisráðherra, um að leita álits hjá óháðum erlendum fræðimanni á fyrirkomulagi og framkvæmd peningastefnu Seðlabanka Íslands.

Í tilkynningu frá Viðskiptaráði segir að undanfarið hafi íslenska krónan reynst fyrirtækjum og einstaklingum fjötur um fót, enda hafi verðbólga verið viðvarandi, gengissveiflur miklar og vaxtastig hátt. Seðlabankinn hafi mátt sæta mismálefnalegri gagnrýni fyrir framkvæmd peningamálastefnunnar. Viðskiptaráð segir trúverðugleik vera verðmætustu eign hvers seðlabanka, sérstaklega þegar hann vinni eftir verðbólgumarkmiði. Það sé því mikilvægt að bankinn njóti stuðnings í aðgerðum hans og ekki sé grafið undan trúverðugleika hans með gagnrýni sem ekki sé á rökum reist.

Viðskiptaráð segir að úttekt sú sem forsætisráðherra boði sé því þarft innlegg í umræðuna og muni fela í sér uppbyggilega gagnrýni á fyrirkomulag og framkvæmd peningastefnu Seðlabanka Íslands og gagnast þannig, bæði Seðlabankanum og íslensku hagkerfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×