Innlent

Ekkert stöðvar Helguvík

Ekkert stöðvar álver í Helguvík úr þessu, segir bæjarstjóri Reykjanesbæjar, Árni Sigfússon. Hitaveita Suðurnesja telur sig eina geta útvegað næga orku til fyrsta áfanga.

Helstu áhrifamenn á Suðurnesjum voru staddir á aðalfundi Hitaveitu Suðurnesja síðdegis í gær þegar fregnir bárust af því að Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra myndi ekki leggja stein í götu álversframkvæmda í Helguvík.

Þórunn taldi raunar í gær rétt að menn biðu með framkvæmdir í Helguvík þar sem óvissa væri um orkuöflun og flutningsleiðir og eftir væri að úrskurða í kærumáli vegna framkvæmdaleyfis. Hjá Hitaveitu Suðurnesja telja menn hins vegar ekki skorta orkuna en þar á bæ fögnuðu menn 30 megavatta stækkun í Svartsengi í gær. Júlíus Jónsson forstjóri segir að Hitaveitan ætli að útvega 100-150 megavött í fyrsta áfanga Helguvíkurálvers og telji sig fara langt í að ná neðri mörkunum á Reykjanesi.

Hjá Landsneti, sem annast flutningslínur rafmagns, vonast Guðmundur Ingi Ásmundsson aðstoðarforstjóri til að samningar takist við sveitarfélögin um nýja línu til Suðurnesja innan þriggja vikna. Árni Sigfússon segir að áformað gagnaver á Vallarheiði, sem fara á í gagnið um næstu áramót, sé miklu viðkvæmara gagnvart truflun á línulögn heldur en álverið, sem fari í gang eftir 2 ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×