Innlent

Björn Ingi kom fram af óheilindum

MYND/Stöð 2

Gísli Marteinn Baldursson, formaður borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, segir Björn Inga Hrafnsson hafa komið fram af óheilindum og að borgarstjórnarflokkurinn sé honum sár og reiður fyrir að rjúfa samstarfið. Samstarfið hafi gengið vel þar til málefni Reykjavik Energy Invest og Orkuveitunnar hafi komið.

Þá tók Gísli Marteinn undir með Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni um að sjálfstæðismenn hafi viljað standa á sínum prinsippum um að opinber fyrirtæki ættu ekki að taka þátt í áhættustarfsemi á kostnað borgaranna.

Þá vísaði hann því til föðurhúsanna sem Björn Ingi hélt fram í dag að svo mikill ágreiningur hefði verið innan Sjálfstæðisflokksins að ekki hefði verið hægt að halda áfram samstarfi.

Þá sagði hann fullkomlega úr lausu lofti gripið að Vilhjálmur nyti ekki trausts innan borgarstjórnarflokksins. Meirihlutinn hefði ekki þurft að falla á máli eins og REI ef menn hefðu í alvörunni viljað vinna saman.

Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarfulltrúi tók í sama streng og Gísli Marteinn. Hún sagði skrítið að heyra í Birni Inga og nýjum samherjum hans tala um mikilvægi lýðræðislegrar umræðu. Björn Ingi hafi ekki þolað einn snúning í því efni. „Það komu okkur mjög á óvart hversu hart Björn Ingi gekk fram í þessu máli," sagði Hanna Birna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×