Enski boltinn

Berbatov vill fara í janúar

Tottenham mætir ekki metnaði Berbatov að sögn umboðsmannsins
Tottenham mætir ekki metnaði Berbatov að sögn umboðsmannsins NordicPhotos/GettyImages

Umboðsmaður framherjans Dimitar Berbatov segir leikmanninn vilja fara frá Tottenham í janúar ef stórlið gerir í hann tilboð. Hann segir markaskorarann "sáttan" hjá Lundúnaliðinu, en það sé ekki klúbbur sem uppfylli metnað hans sem knattspyrnumanns.

Í viðtali við Sun í gærkvöld hafði umboðsmaður markaskorarans þetta að segja. "Ég er þegar búinn að tala við stjórnarformann Tottenham og biðja hann að leyfa Berbatov að fara ef stórlið með metnað gerir í hann tilboð í janúar. Dimitar líður sæmilega hjá Tottenham en ég myndi ekki segja að hann væri hamingjusamur þar. Hann er 27 ára gamall og ef hann vill uppfylla metnað sinn sem knattspyrnumaður, gæti hann þurft að leita annað. Hann hefur samt sýnt hollustu sína og heldur áfram að skora þó ekki hafi gengið vel hjá liðinu," sagði umboðsmaðurinn.

Fastlega má reikna með því að þessi sprengja dragi dilk á eftir sér í herbúðum Tottenham, en forráðamenn félagsins hafa ítrekað sagt að Berbatov sé ekki til sölu. Umboðsmaður framherjans segir ekkert óeðlilegt við þessi áform hans.

"Ég vil ítreka að þetta hefur ekkert með stjóra Tottenham að gera. Liðið hefur bara byrjað illa á leiktíðinni og Berbatov vill vinna titla sem fyrst. Hann setur ekki fyrir sig að spila utan Englands, en það eru ekki nema fimm eða sex lið í Evrópu sem hafa sama metnað og hann. Það eru þegar tvö lið í Evrópu og eitt á Englandi á höttunum eftir honum og það er aldrei að vita hvað gerist í janúar," sagði umboðsmaðurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×