Innlent

Annríki hjá björgunarsveitarmönnum á Austurlandi

Hundrað og tuttugu björgunarsveitarmenn voru að störfum í gærkvöldi og fram að miðnætti á Austurlandi vegna óveðurs sem þar gekk yfir. Þakplötur fuku víða og varð bæði tjón og húsum og bílum. Þegar líða fór á kvöldið var einnig mikið um útköll vegna vatnselgs sem að myndaðist.

Þráinn Sigvaldason hjá björgunarsveitinni Héraði á Egilsstöðum sagði í samtali við fréttastofu að þar hafi menn haft í nógu að snúast í gær en rafmagnsleysi hafi gert mönnum erfitt fyrir. Rafmagnslaust var á Egilsstöðum í gær frá því um klukkan fimm þar til um ellefu. Veðrið gekk að mestu niður í kringum miðnætti og er allt innanlandsflug á áætlun í dag.

Búist er við því að veður verði þokkalegt í dag. Það hvessir með kvöldinu, fyrst og fremst allra vestast og svo á hálendinu. Gert er ráð fyrir að lægð nálgist landið með kvöldinu, þá verður nokkur úrkoma og það bætir í vind. Nokkuð hvasst verður í kvöld á sunnan og vestanverðu landinu. Sigurður Þ. Ragnarsson veðurfræðingur segir ekkert sérstaklega vel viðra fyrir brennur í kvöld en hann hafi þó séð það verra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×