Innlent

Engar reglur um gjafir til stjórnmálamanna

Engar reglur eru til um gjafir fyrirtækja til ráðherra og þingmanna og því treyst á hyggjuvit og smekkvísi bæði gefenda og þiggjenda. Landsbankinn færði ráðherrum ríkisstjórnarinnar rauðvínsflösku að gjöf fyrir jólin, sem viðskiptaráðherra segir óheppilegt.

Björgvin Sigurðsson, viðskipta- og þar með bankamálaráðherra, fékk sína flösku af Riojavíninu senda með póstkröfu og barst hún honum í dag. Ekki höfðu allir ráðherrar fengið vínið í hendur, þótt staðfest sé að öllum var þeim sent vín.

Ítarleg lög voru sett um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda fyrir ári - en þar er ekki minnst á persónulegar gjafir til ráðamanna. Þó er í greinargerð því beint til "forsætisnefndar Alþingis að hún setji reglur sem skyldi þingmenn og ráðherra til að upplýsa um helstu atriði er varða tekjur þeirra og gjafir sem þeir hafi fengið."

Bretar settu sér slíkar siðareglur fyrir um áratug. Þar segir m.a. að "enginn ráðherra eða opinber starfsmaður skuli þiggja gjafir, velvild eða þjónustu ef túlka mætti gjöfina svo að viðkomandi yrði á einhvern hátt skuldbundin gefanda."

Og þar er gagnsæið meira en hér - á heimasíðu breskra yfirvalda er nákvæmur listi yfir t.d. allar gjafir til ráðherra að verðmæti yfir 140 pundum eða rösklega 17 þúsund króna.

Hér er þetta hins vegar ekki opinbert og engar reglur þótt einhverjum kynni að þykja full ástæða til, t.d. tjáði einn ráðherra fréttastofu að honum hefði oftsinnis verið boðið í laxveiði en ávallt afþakkað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×