Enski boltinn

Benitez: Við erum enn inni í myndinni

NordicPhotos/GettyImages

Rafa Benitez segir hugarfar sinna manna hafa undirstrikað að Liverpool sé ekki enn úr myndinni í baráttunni um enska meistaratitilinn eftir 4-1 sigur á Portsmouth í dag.

Liverpool er 10 stigum á eftir toppliði Arsenal í deildinni en á leik til góða. Benitez er ekki búinn að gefa upp alla von í 18 ára bið rauða hersins eftir meistaratitli.

"Við erum mjög ánægðir í dag því liðið spilaði vel og skoraði fjögur mörk á móti liðinu sem hefur spilað best allra á útivöllum í vetur. Það er mjög mikilvægt að sjá að sjálfstraust manna er í góðu lagi og allir í góðum anda. Við fengum aragrúa færa í dag og liðið sýndi bæði klókindi og ástríðu," sagði Benitez og benti enn og aftur á mikilvægi jólaleikjanna þegar kemur að keppni um meistaratitilinn.

"Það veltur að miklu á því hvernig hin liðin standa sig, en allir verða að krækja í öll stig sem eru í boði í þessari tíu leikja törn og við verðum að sjá til hvernig gengur hjá Chelsea, Arsenal og United."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×