Enski boltinn

Wenger hrósaði Tottenham

Nordicphotos/Getty images.

Arsene Wenger sagði sína menn í Arsenal hafa þurft að vinna vel fyrir öllum stigunum í dag þegar þeir lögðu granna sína í Tottenham 2-1.

"Þetta var mjög erfiður leikur og við þurftum að hafa mikið fyrir þessu af því við vorum nokkuð frá okkar besta. Tottenham var betri aðilinn í fyrri hálfleik. Það sem stendur uppúr er að við náðum í þrjú stig gegn liði sem hefur bætt sig gríðarlega á síðustu vikum. Nú getum við notið þess að vera í toppsætinu á jólunum," sagði Wenger.

Gestirnir voru klaufar að fá ekkert út úr leiknum þar sem Robbie Keane fór sérstaklega illa að ráði sínu og skaut í slá og klúðraði vítaspyrnu. Þar með fauk fyrsta tækifæri Tottenham til að leggja granna sína frá því fyrir aldamót.

Gus Poyet, aðstoðarstjóri Tottenham, vildi hinsvegar ekki kenna fyrirliðanum um tapið í dag.

"Þetta hefur ekkert með Robbie að gera. Hann er sá sem tekur vítin og hann er því sá eini sem hefur tækifæri til að klikka á þeim. Þetta snýst meira um það hvernig við töpuðum leiknum eftir vítaspyrnuna. Ef menn verjast ekki föstum leikatriðum gegn liðum eins og Arsenal - verður þeim refsað," sagði Poyet.

Hann hrósaði þó leikmönnum sínum fyrir frammistöðu sína á Emirates í dag. "Liðið stóð sig ágætlega gegn einu af bestu liðunum á Englandi og við verðum að taka góðan lærdóm frá þessum leik og bæta okkur í hverri viku," sagði Poyet - ekki ósvipuð skilaboð og fyrrum stjóri Tottenham, Martin Jol, gaf eftir hvern einasta leik liðsins á síðustu mánuðum sínum í starfi.

Þá er bara að bíða og sjá hvort þessi frægi lærdómur fer að detta í hús hjá liði Tottenham, sem virðist ógerlegt að leggja granna sína í Arsenal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×