Enski boltinn

Ekkert óvænt á Emirates

Nicklas Bendtner fagnar sigurmarki sínu gegn Tottenham
Nicklas Bendtner fagnar sigurmarki sínu gegn Tottenham NordicPhotos/GettyImages

Arsenal hefur verið með fádæma yfirburði gegn grönnum sínum í Tottenham á öldinni og á því varð engin breyting í dag þegar Arsenal vann 2-1 sigur í einvígi liðanna í dag.

Leikurinn var frekar daufur framan af og markalaust var í hálfleik. Emmanuel Adebayor kom Arsenal yfir strax í upphafi síðari hálfleiks, en eftir það hresstust undirmannaðir gestirnir og Dimitar Berbatov náði að jafna leikinn á 66. mínútu með góðu marki eftir sendingu frá Robbie Keane. Keane hafði skömmu áður átt skot í slá.

Á 72. mínútu dró sannarlega til tíðinda þegar Tottenham fékk vítaspyrnu, en Robbie Keane lét Almunia verja frá sér. Það var svo danski landsliðsmaðurinn og varamaðurinn Nicklas Bendtner sem gerði út um leikinn á 75. mínútu þegar hann skallaði knöttinn í netið eftir hornspyrnu - ekki fyrsta klaufalega markið sem Tottenham fær á sig úr föstum leikatriðum.

Tottenham menn geta því nagað sig í handarbökin fyrir að hafa ekki fengið neitt út úr leiknum, en yfirburðir granna þeirra í Arsenal halda áfram og Tottenham hefur ekki unnið Arsenal síðan árið 1999. Liðið fær þó tækifæri til að ná fram hefndum þegar liðin mætast í enska deildarbikarnum eftir áramót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×