Innlent

Skúta sprakk í tætlur í illviðri á Ísafirði

Fárviðri geisaði á Ísafirði í nótt og fram á morgun og þeytti meðal annars stórum vöruflutningavagni mörg hundruð metra. Þá sprakk skúta í tætlur og þakplötur liggja eins og hráviði um alla Eyrina.

Fyrst geysaði stórviðri úr suðaustri en undir morgun datt allt í dúnalogn. Skömmu síðar var eins og hleypt væri af byssu úr suðvestri og fór vindurinn upp undir 60 metra á sekúndu í kviðum. Háir vinnupallar við Norðurtangahúsið hrundu eins og spilaborg, stór ruslagámur valt eins og eldspýtnastokkur og þaköplötur fóru meira að segja að fjúka að björgunarsveitarhúsinu.

Björgunarsveitarmenn hjálpuðu lögreglu að sinna fjölda útkalla og eru ýmsar skemmdir að koma í ljós nú í birtingunni og eftir að vind tók að lægja.

Suðvesturhornið fór heldur ekki varhluta af veðrinu í gærkvöldi og fram á nótt. Björgunarsveitarmenn, lögregla og slökkviliðsmenn sinntu hátt í 150 útköllum á höfuðborgarsvæðinu í nótt vegna foks af ýmsu tagi. Sömu sögu er að segja af Suðurlandi, Reykjanesi og úr Borgarflirði.

Meðal annars fauk stór bátur á þurru landi af stað í Kópavogi, uppsláttur að einbýlishúsi við Þjórsárver í Flóa splundraðist, kerra fauk á farþegaþotu á Keflavíkurflugvelli þannig að gat kom á skrokk hennar, bensíndælur fuku um koll á bensínstöð í Reykjavík, 300 fermetra stálgrindarsekmma fauk langar leiðir á Akranesi og gjöreyðilagðist og bílar skemmdust þegar auglýsingaskilti féll á þá á Ártúnshöfða, svo eitthvað sé nefnt.

Þegar ljóst varð í hvað stefndi var samhæfingastöðin í Skógarhlíð í Reykjavík virkjuð fulltrúum almannavarna, lögreglu, slökkviliðs og björgunarsveita. Þar vöktuðu menn ástandið framundir klukkan sex í morogun




Fleiri fréttir

Sjá meira


×