Innlent

Auðbjörg kaupir eignir Humarvinnslunnar í Þorlákshöfn

MYND/Einar Elíasson

Útgerðarfyrirtækið Auðbjörg ehf. hefur keypt hluta af eignum Humarvinnslunnar í Þorlákshöfn og þannig tryggt að kvóti Humarvinnslunnar verði áfram í bæjarfélaginu. Óvíst er þó hversu margir fá vinnu í frystihúsi Humarvinnslunnar en þar var öllu starfsfólki sagt upp í lok september.

Fram kemur í tilkynningu frá félögunum tveimur að Auðbjörg kaupi fiskiskipið Ársæl ÁR-66 með veiðiheimildum í humri og einnig starfstöð Humarvinnslunnar, en það er frystihús sem er sérhæft til vinnslu á humri og flatfiski. Auðbjörg tekur við eignunum nú um miðjan mánuðinn og hyggst áfram reka bæði Ársæl og frystihúsið en væntanlega með breyttum áherslum. Frá sama tíma hættir Humarvinnslan fiskverkun og útgerð.

Humarvinnslan tilkynnti í lok september að öllum starfsmönnum í landvinnslu, alls 59 manns, yrði sagt upp og var ástæðan meðal annars hráefnisskortur, þar á meðal vegna skerðingar á þorskkvóta, og óhagstæð gengisþróun. Uppsagnarfrestur flestra starfsmannanna lýkur nú um áramót.

Auðbjörg hefur í nærri 40 ár starfað í Þorlákshöfn og er í eigu Einars Friðriks Sigurðssonar og fjölskyldu hans. Félagið hefur undanfarin ár gert út þrjá báta, á snurvoð, línu og til neta og humarveiða. Þá hefur fyrirtækið rekið saltfiskverkun og sjófrystingu.

Einar sagði í samtali við Vísi í dag að viðræður um kaup á eignum Humarvinnslunnar hefðu ekki haft langan aðdraganda. Aðspurður um það hversu margir myndu fá vinnu áfram í frystihúsi Humarvinnslunnar sagði ómögulegt að segja til um það. Farið yrði yfir það á næstunni en það yrði að líkindum einhver hópur starfsmannanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×