Innlent

Tekjuafgangur ríkissjóðs tæpir 40 milljarðar á næsta ári

MYND/GVA

Gert er ráð fyrir að tekjuafgangur ríkissjóðs á næsta ári verði rúmir 39,2 milljarðar króna samkvæmt framhaldsáliti meirihluta fjárlaganefndar milli annarrar og þriðju umræðu um fjárlög næsta árs.

Vísað er í endurskoðaðra tekjuáætlun efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins þar sem gert er ráð fyrir að tekjur ríkisins á næsta ári verð rúmir 473 milljarðar króna. Er það rúmlega fjögurra milljarða króna hækkun á milli umræðna um frumvarpið og munar þar mestu um fjóra milljarða sem greiddir eru fyrir eignir á fyrrum varnarsvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Þá hækka ríkistekjur af flugvallasköttum og varaflugvallagjaldi um 110 milljónir króna.

Samkvæmt tillögu meirihluta fjárlaganefndar aukast útgjöld ríkissjóðs um 2,6 milljarða króna milli annarrar og þriðju umræðu um fjárlögin. Það má meðal annars rekja til aðgerða sem samþykkt var að ráðast í á næsta ári til að bæta stöðu öryrkja og aldraðra.

Þannig er gert ráð fyrir að fjárheimild félagsmálaráðuneytisins verði aukin um nærri 2,2 milljarða vegna aðgerðanna en fjárheimild heilbrigðisráðuneytisins verði lækkuð um tæpan milljarð meðal annars vegna flutninga verkefna frá heilbrigðisráðuneyti til félagsmálaráðuneytis.

Þá er einnig lagt til að fjárheimild fjármálaráðuneytisins verði hækkuð um tæpa 1,2 milljarða, aðallega vegna kostnaðar við verkefni tengd gamla varnarsvæðinu. Þar er einkum um að ræða útgjöld í tengslum við hreinsun svæðisins og lagfæringar og breytingar á fasteignum til að koma þeim í söluhæfara ástand.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×