Innlent

Annríki hjá hjálparsveitum vegna ofsaveðurs

Björgunarsveitamenn eiga annríkt þessa stundina. Myndin tengist fréttinni ekki.
Björgunarsveitamenn eiga annríkt þessa stundina. Myndin tengist fréttinni ekki.

Björgunarsveit Slysavarnafélagsins Landsbjargar í Hafnarfirði hefur borist að minnsta kosti 25 hjálparbeiðnir í kvöld. Nú vinna um 50 björgunarsveitarmenn að því að leysa þau. Verst hefur ástandið verið við norðurbakka hafnarinnar þar sem nokkrar nýbyggingar eru. Einnig hafa þakplötur losnað af húsum, bílar fokið, gluggar brotnað og girðingar, vinnupallar og fánastangir farið af stað. Á einum stað fauk grill inn um glugga og á öðrum splundraðist hjólhýsi.

Víðar veldur veðrið miklum usla.

Við Nýjabæ í Garðaholti eru fjárhús, hlaða og vélageymsla að fjúka.

Við Löngufit í Garðabæ sprakk vinnuskúr.

Einnig hafa borist hjálparbeiðnir frá Kópavogi og Reykjavík, og þá helst úr efri hverfum.

Í Reykjanesbæ vinna um 30 björgunarsveitarmenn að því að hefta fok í bænum og sinna hjálparbeiðnum. Þar hafa fokið girðingar, m.a. við verslunina Byko og bátar eru að losna í höfninni. Björgunarsveitin Þorbjörn í Grindavík var kölluð út um kl 21 í kvöld vegna foks í bænum. Einnig var athugað með ástand í höfninni.

Í Borgarnesi vinnur Björgunarsveitin Brák að því að leysa einar 10 hjálparbeiðnir er borist hafa. M.a. þarf að hefta töluvert fok frá nýbyggingum við Brákarbraut.

Í Vestmannaeyjum er verið að kalla út björgunarsveit.

Upplýsingar frá Veðurstofu gefa til kynna að veðrið muni ganga yfir höfuðborgarsvæðið um klukkan eitt í nótt. Vindur nær allt að 60 m/sek undir Hafnarfjalli þessa stundina og er vegurinn þar lokaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×