Innlent

800 lítrar af klór láku úr klórgeymi í Hveragerði

Tappi í klórgeymi við Sundlaugina í Laugaskarði gaf sig aðfararnótt föstudagsins síðasta með þeim afleiðingum að umtalsvert magn af klór lenti í læk sem rennur í Varmá.

Klórgeymirinn var í öryggiskari sem brást þegar á reyndi. Áætlað er að magn klórs í geyminum geti hafa verið um 800 lítrar en fyllt var á hann daginn áður en lekinn varð. Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði, segir að sú áfylling tengist ekki lekanum á nokkurn hátt.

Starfsfólk sundlaugarinnar varð vart við lekann á föstudagsmorgunn en gerði sér ekki grein fyrir alvarleika málsins. Bæjaryfirvöldum var því ekki kunnugt um málið fyrr en í morgun eftir að bera fór á dauðum fiskum í ánni.

Allir 800 lítrarnir láku úr gámnum en um 100 metrar eru þaðan að Varmá og því erfitt að áætla hversu mikið af klórnum lak í ánna.

Samstundis var boðað til fundar með fulltrúum Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, Vinnueftirliti ríkisins, vatnalíffræðingi frá Rannsókna og fræðasetri Háskóla Íslands í Hveragerði, forstöðumanni sundlaugar, skipulags- og byggingafulltrúa og bæjarstjóra.

Á fundinum var farið yfir stöðu málsins, viðbrögð og aðgerðir. Búið er að gera við klórgeyminn og hefur verkfræðistofu verið falið að gera úrbótaáætlun svo atburðir sem þessir endurtaki sig ekki. Ennfremur hefur vatnalíffræðingi verið falið að rannsaka lífríki árinnar til að kanna hvaða áhrif atburðurinn hefur haft á það. Veiðimálastofnun hefur ennfremur verið upplýst um málið.

Aldís segir að að svo stöddu sé ekki hægt að fullyrða um áhrif atburðarins á lífríki árinnar hvorki til lengri eða skemmri tíma.

Hún segist líta þennan atburð mjög alvarlegum augum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×