Innlent

Fjárlagafrumvarpi vísað til þriðju umræðu

Kristján Þór Júlíusson er varaformaður fjárlaganefndar Alþingis.
Kristján Þór Júlíusson er varaformaður fjárlaganefndar Alþingis.

Samþykkt var fyrir stundu að vísað fjárlagafrumvarpi næsta árs til þriðju umræðu á Alþingi. Fjörutíu og einn þingmaður greiddi atkvæði með tillögunni.

Stjórnarandstaðan gagnrýndi lausatök á fjármálum ríkisins við atkvæðagreiðsluna og sagði Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri - grænna að fjármálafrumvarpið væri daufgert líkt og ríkisstjórnin. Þá gagnrýndu stjórnarandstæðingar að margir ráðherrar væru fjarverandi við atkvæðagreiðsluna og þá umræðu sem henni tengdist. Kristján Þór Júlíusson, varaformaður fjárlaganefndar, sagði hins vegar að fjárlagafrumvarpið endurspeglaði sterka stöðu ríkissjóðs og vísaði til frétta í síðustu viku sem hefðu sýnt stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna. Lífskjör og lífsskilyrði væru með því besta sem gerðist í heiminum. Fjárlögin nú legðu fjölda allan af stoðum sem ætlað væri að styðja þá góðu stöðu sem Ísland væri í.

Reikna má með að allnokkrar breytingar verði gerðar á fjárlagafrumvarpinu á milli annarrar og þriðju umræðu þar sem ríkisstjórnin hefur gefið það út að til standi að gera breytingar í þágu aldraðra og öryrkja. Þær breytingar taka mið af tillögum nefndar á vegum félagsmálaráðuneytsins sem enn hafa ekki verið birtar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×