Innlent

Ráðist í viðræður við Indverja um fríverslunarsamning

MYND/Pjetur

EFTA-ríkin vonast til þess að geta hafið fríverslunarviðræður við Indverja snemma á næsta ári eftir að samþykkt var á ráðherrafundi EFTA í dag að hefja slíkar viðræður. Þetta kemur fram í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra tók þátt í fundinum en meginefni hans voru fríverslunarsamningar við önnur ríki, stöðumat og forgangsröðun.

Á fundinum var jafnframt ákveðið að skrifa undir fríverslunarsamning milli EFTA-ríkjanna og Kanada í byrjun næsta árs. Enn fremur var ákveðið að auka viðskiptasamstarf við Rússa og Úkraínumenn og að hefja fríverslunarviðræður við þessi ríki svo fljótt sem verða má eftir að þau hafa fengið aðild að Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Jafnframt lýstu ráðherrarnir áhuga á að hefja fríverslunarviðræður við Indónesíu og að dýpka samskiptin við Malasíu á sviði viðskipta.

EFTA-ríkin eiga einnig í viðræðum við Alsír, Kólumbíu og Perú ásamt fjölmörgum ríkjum við Persaflóa um fríverslunarsamninga og er vonast til að samningaviðræðum við þessi ríki ljúki á næsta ári.

Að loknum ráðherrafundi tók við fundur ráðherra með þingmannanefnd EFTA, þar á meðal fimm íslenskum þingmönnum sem formaður þingmannanefndarinnar Katrín Júlíusdóttir stýrði. Skipst var á skoðunum um EES-samstarfið, helstu mál sem þar eru til umfjöllunar og framtíðarhorfur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×