Innlent

Ekki aðhafast frekar vegna skerðinga lífeyrissjóða

MYND/Vilhelm

Ríkisstjórnin mun ekki aðhafast frekar vegna skerðingar lífeyrissjóða á greiðslum til lífeyrisþega nú í desembermánuði að sögn Geirs H. Haarde forsætisráðherra.

Þetta kom fram í svari hans við fyrirspurn Steingríms J. Sigfússonar, formanns Vinstri - grænna, á Alþingi í dag. Steingrímur benti að 1600-1700 öryrkjar hefðu orðið fyrir barðinu á skerðingunni um síðustu mánaðamót og greiðslur hefðu í sumum tilvikum minnkað um tugi þúsunda. Sagði hann þetta kaldar kveðjur í jólamánuðinum og spurði hvort ríkisstjórnin ætlaði að láta þessa kjaraskerðingu standa óbreytta eða láta til sín taka. Benti hann á að bregðast þyrfti fljótt við.

Geir H. Haarde sagði lífeyrissjóðina vera að bregðast við aðstæðum í eigin ranni á grundvelli samþykkta sinna. Benti hann á að félagsmálaráðherra hefði boðið lífeyrissjóðunum 100 milljóna króna fyrirgreiðslu til þess að falla frá skerðingunni en því hefðu lífeyrissjóðirnir hafnað. Ríkisstjórnin gæti ekki beitt sér fyrir frekara inngripi í starfsemi lífeyrissjóðanna.

Hins vegar benti hann á að á milli annarrar og þriðju umræðu um fjárlagafrumvarpið yrði unnið að almennum breytingum í þágu aldraðra og öryrkja. Ákvarðanir þar um lægju ekki fyrir en það myndu þær gera á næstu dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×