Innlent

Stefnir í dómsmál vegna virkjana í Þjórsá

Útlit er fyrir að þeir landeigendur við Þjórsá sem andvígir eru þremur virkjunum í neðri hluta árinnar sem Landsvirkjun hyggst reisa leiti til dómstóla með mál sitt.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum Sól á Suðurlandi. Þar er bent á að landeigendur dragi í efa réttmæti aðgerða Landsvirkjunar við Þjórsá og þá sé einnig hafinn undirbúningur bótakrafna á hendur sveitarfélögum vegna málsins.

Landeigendur og andstæðingar virkjana funduðu á dögunum og ræddu meðal annars þá ákvörðun Flóahrepps að gera ráð fyrir Urriðafossvirkjun í nýrri auglýsingu að skipulagi hreppsins. Segir Sól á Suðurlandi sterkan vilja margra landeigenda og íbúa í sveitunum við Þjórsá til að verja ána og umhverfi hennar og áfram verði leitað leiða til þess.

Þá er bent á að sérfræðingar á vegum heimamanna telji hættumat vegna Urriðafossvirkjunar sem Landsvirkjun lagði fram í haust standist ekki. Þá töldu fundarmenn enn fremur óljóst hvort ríkisvaldið hygðist grípa til eignarnáms vegna virkjananna og hyggjast þeir fá fram afdráttarlaus svör þar um.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×