Innlent

Lögreglan vissi ekki um boðaða komu herskárra nýnasista

Breki Logason skrifar
Serbneskir meðlimir Blood & Honour á styrktartónleikum samtakanna í Serbíu.
Serbneskir meðlimir Blood & Honour á styrktartónleikum samtakanna í Serbíu.

„Nei ég hef nú ekkert heyrt um þetta en málið er enn í rannsókn," segir Friðrik Smári Björgvinsson hjá lögreglunni í Reykjavík. Rasistasíðan skapari.com hefur boðað komu herskárra nýnasista hingað til lands í vetur.

Friðrik Smári vissi lítið um boðaða komu þessara samtaka þegar Vísir spurðist fyrir um málið.

Combat 18 er hluti af nýnasistasamtökum sem kalla sig Blood & Honour og eru þekkt víða um heim. Combat 18 eða C 18 eins og þau eru kölluð eru þekkt fyrir ofbeldi gegn innflytjendum og hafa staðið fyrir ýmsum mótmælum í gegnum tíðina. C 18 hluti samtakanna var stofnaður árið 1991 og hafa meðlimir þeirra meðal annars setið í fangelsi fyrir ofbeldisverk.

Á síðunni segir: „Kynnið ykkur C 18 því það er að koma hingað til Íslands. Gaman verður í vetur."

Friðrik Smári segir lögregluna ekki kannast við komu samtakanna en rannsókn sem snýr að síðunni er í fullum gangi. „Við erum meðal annars að kanna þessar hótanir, ógnanir og meiðandi ummæli. Einnig erum við að skoða hverjir standa að baki síðunni," segir Friðrik Smári en síðan er vistuð í Bandaríkjunum.

„Það getur hugsanlega skipt máli í þessu. Menn geta nú samt ekki fríað sig frá skrifum sínum en það verður hugsanlega að standa öðruvísi að málum ef lögsagan liggur annarsstaðar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×