Innlent

Segja margar slysagildrur við gatnamót Bústaðavegs og Reykjanesbrautar

Íbúar í Breiðholtinu kvarta undan gatnamótum Bústaðavegs og Reykjanesbrautar og segja svæðið vera slysagildru. Þeir eru orðnir langþreyttir á aðgerðarleysi borgaryfirvalda.

Gatnamót Bústaðavegs og Reykjanesbrautar eru ein þau umferðarþyngstu á höfuðborgarsvæðinu og á háannatímum myndast þar oft langar bílaraðir.

Íbúasamtökin Betra Breiðholt hafa gagnrýnt borgaryfirvöld fyrir aðgerðarleysi og vilja að strax verði farið í gerð mislægra gatnamóta. Á vegaáætlun er gert ráð fyrir fjármagni upp á 600 milljónir til framkvæmdanna á árinu 2008. Samtökin óttast fjárveitingin falli niður kjósi borgaryfirvöld að aðhafast ekkert í málinu.

Tvær tillögur að mislægum gatnamótum voru kynntar fyrir borgarráði í fyrra. Í þeirri fyrri er gert ráð fyrir stokk undir Reykjanesbraut en í þeirri seinni að byggð sé brú yfir brautina. Hugmyndirnar hlutu hins vegar ekki hljómgrunn í borgarráði þar sem þær þóttu raska náttúru Elliðaárdals.

Óskar Bergsson, formaður framkvæmdaráðs Reykjavíkurborgar, sagði í samtali við fréttastofu að unnið væri að nýju lausnum í málinu. Nú þegar hefur verið ákveðið að loka fyrir vinstri beygju frá Bústaðavegi norður Reykjanesbraut til að stytta biðtíma á ljósum. Þá sé borgin í samvinnu við vegagerðina einnig að skoða aðrar varanlegri lausnir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×