Innlent

Hellisheiði ófær vegna illviðris og hálku

Svona var umhorfs á Hellisheiði um klukkan hálftíu samkvæmt vefmyndavél Vegagerðarinnar.
Svona var umhorfs á Hellisheiði um klukkan hálftíu samkvæmt vefmyndavél Vegagerðarinnar. MYND/Vegagerdin.is

Búið er að loka Hellisheiði vegna illviðris en vegfarendum er beint á að fara Þrengsli.

Lögreglan á Selfossi hefur í morgun aðstoðað fjölmarga bíla sem lent hafa í vandræðum á heiðinni, en þar hafa vindhviður farið upp í 30 metra á sekúndu. Við það bætist að flughált er á heiðinni og hafa bílar fokið út af eða utan í vegrið í veðurhamnum. Engan hefur þó sakað í óhöppunum.

Vegagerðin segir að mjög slæm færð sé nú um allt land. Hálka og snjókoma er í Þrengslum og þá er snjóþekja á Sandskeiði. Enn fremur er hálka í uppsveittum Suðurlands.

Á Vesturlandi er hálka og hálkublettir, óveður er á Holtavörðuheiði og á Vestfjörðum er víðast hvar þæfingur, hálka og hálkublettir. Ófært er um Klettsháls, Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði og snjóþekja og stórhríð á Steingrímsfjarðarheiði. Þá er Þorskafjarðarheiði er ófær.

Á Norðurlandi er hálka, hálkublettir, éljagangur og skarfengir á flestum leiðum. Hálka og stórhríð er á Öxnadalsheiði. Óveður er í Vatnsskarði og á Hólasandi.

Á Norðausturlandi er hálka, snjóþekja og éljagangur. Óveður er á Möðrudalsöræfum, þungfært og stórhríð á Vopnafjarðarheiði.

Á Austurlandi er hálka og hálkublettir, ófært um Fjarðarheiði, Öxi og Breiðdalsheiði, þungfært og óveður í Oddskarði. Óveður er í Hvalsnesi og við Lón. Á Suðausturlandi er þó víðast hvar greiðfært þó eru hálkublettir á stöku stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×