Innlent

Telur að verið sé að lauma inn einkavæðingu framhaldsskóla

Höskuldur Þórhalsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Höskuldur Þórhalsson, þingmaður Framsóknarflokksins.

Höskuldur Þórhallsson, fulltrúi Framsóknarflokksins í menntamálanefnd Alþingis, telur að verið sé að lauma inn einkavæðingu framhaldsskóla með nýju frumvarpi menntamálaráðherra til laga um framhaldsskóla.

Ráðherra kynnti frumvarpið ásamt þremur öðrum frumvörpum sem lúta að menntun í landinu í fyrradag. Höskuldur segir jákvætt að tekið sé á skólastigunum þremur í heild sinni og farið yfir inntak menntastefnunnar.

Hins vegar setji hann spurningarmerki við ákvæði í lögum um framhaldsskóla sem kveður á um að starfrækja megi slíka skóla sem sjálfseignarstofnun, hlutafélag eða með öðru viðurkenndu rekstrarformi. „Ég tel að þarna sé verið að lauma inn einkavæðingu í framhaldsskólakerfinu þar sem hér er um nýmæli að ræða í lögum," segir Höskuldur. Hann vill að menntamálaráðherra skýri þetta vel fyrir menntamálanefnd.

Aðspurður um önnur ákvæði laga um framhaldsskóla segir Höskuldur að það sé ágætt að verið sé að létta á miðsstýringu í kerfinu. Það sé hins vegar mjög á reiki hvað framhaldsskólanám eigi að vera langt. Sér finnist sem þetta feli í sér styttingu á framhaldsskólanum, en slík áform menntamálayfirvalda voru mjög umdeild fyrir nokkrum misserum. Hann bendir enn fremur á að það sé á reiki hversu margar einingar þurfi í stúdentspróf og auk þess vakni spurningar hvort háskólar landsins þurfi að fara bjóða upp á undirbúningsnám þar sem próf framhaldsskólanna verða ólík.

Þá segir Höskuldur að óvissa ríki um það hversu mikið fjármagn fylgi þessum breytingum á skólakerfinu, til að mynda sjái hann engin merki um að tekið sé tillit til þessa í fjárlagafrumvarpi næsta árs. „Ég tel það algjörlega tímabært að hækka laun kennara og ég hefði viljað sjá þess merki í fjárlagafrumvarpi næsta árs," segir Höskuldur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×