Innlent

Listaháskólinn við Laugarveg

Listaháskólinn mun rísa á Laugavegi og verslunarkjarni á Landsbanka- og Barónsreit samkvæmt samningum sem samþykktir voru á fundi borgrarráðs í morgun.

Fram kemur á vef Reykjavíkurborgar að um sé að ræða makaskiptasamning milli Reykjavíkurborgar og Samson Properties sem meðal annars greiði fyrir uppbyggingu Listaháskólans við Laugaveg.

Samson Properties hafa verið í viðræðum við fulltrúa Listaháskóla Íslands þar sem gert er ráð fyrir að Listaháskólinn byggi á lóðunum á Frakkastígsreit með stækkunarmöguleika yfir Hverfisgötuna. Samkomulagið við Listaháskólann byggist á því að Samson Properties eða dótturfélög eignist lóðaréttindi og fasteignir Reykjavíkurborgar á reitnum.

Þá greiðir samningur borgarinnar og Samson fyrir því að lóð stúdentagarða við Lindargötu geti orðið heildstæðari, bæti umhverfið og opni á möguleikann á að byggja fleiri stúdentaíbúðir á reitnum.

Verslunarkjarni á Barónsreit

Enn fremur hefur í nokkurn tíma verið unnið að því að reiturinn sem afmarkast af Hverfisgötu, Barónsstíg, Skúlagötu og Vitastíg kæmist í uppbyggingu og hefur Skipulagssjóður borgarinnar staðið að uppkaupum á eignum á reitnum.

Í ljósi þess að Samson hafði einnig fjárfest mikið á reitnum þótti eðlilegt að ganga til samninga við félagið um kaup þeirra á eignum Reykjavíkurborgar. Gert er ráð fyrir að deiliskipulag á reitnum verði endurskoðað og að byggt verði heildstætt á reitnum en frumtillögur Samsons ganga út á uppbyggingu miðborgarkjarna með verslunar- og þjónustuhúsnæði, skrifstofum og íbúðum á reitnum. Rík áhersla verður lögð á að tengja uppbygginguna við götumynd og sérkenni Laugavegar og Vitastígs eftir því sem segir á vef Reykjavíkurborgar.

Þá er bent á að verslunarkjarni á þessum stað sé mikilvægur til að styrkja Laugaveginn í sessi sem aðalverslunargötu Reykjavíkur. Um leið sé ekki síður mikilvægt að fjölbreytilegt yfirbragð Laugavegar verði varðveitt. Eins verður haft til hliðsjónar að gott aðgengi fótgangandi vegfaranda að verslunum verði frá Laugavegi og að þeirri þjónustu sem verður á nyrðri hluta reitsins. Miðað er við að verslanir verði á fyrstu hæð við Laugaveg.

Við endurskoðun á deiliskuplaginu á reitnum verður sérstaklega haft í huga að á Barónsreit er Bjarnaborgin við Hverfisgötu 83 friðuð og þá stendur til að friða Barónsfjósið við Barónsstíg 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×