Innlent

Tónmöskvar í fundasal borgarstjórnar

MYND/Pjetur

Ákveðið var á borgarráðsfundi í morgun að setja upp svokallaða tónmöskva í fundarsal borgarstjórnar til þess að auðvelda heyrnarskertum að hlýða á umræður í borgarstjórn.

Tónmöskvi er einfalt mögnunartæki sem bætir mjög aðgengi heyrnarskertra að umræðum í opnu rými. Hann sendir frá sér hljóð með rafsegulbylgjum í innbyggðan móttakara í heyrnartækjum.

Bent er á í tilkynningu frá borginni að allt að tíundi hluti þjóðarinnar sé heyraskertur og talið er um helmingur þess hóps noti heyrnartæki. Það þýði að þúsundir Reykvíkinga geti haft gagn af tónmöskva.

Hugmyndin að uppsetningunni kemur frá Heyrnarhjálp og voru tónmöskvar kynntir fyrir borgarstjóra á 70 ára afmæli félagsins á dögunum. Heyrnarhjálp mun vera ráðhúsinu innan handar við innflutning tónmöskvans en þeir eru einfaldir í uppsetningu og kosta í kringum 100 þúsund krónur. Vonast er til að fleiri opinberar byggingar fylgi í kjölfar Reykjavíkurborgar eftir því sem segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×