Innlent

Hundrað milljónir í forvarnir árlega í borginni

MYND/Anton
Borgarráð samþykkti á fundi sínum í dag að leggja árlega til 100 milljónir króna í forvarnarverkefni í hverfum borgarinnar næstu þrjú árin. Þetta var gert að tillögu borgarstjóra.

Fram kemur í tilkynningu frá borginni að í þessu skyni verði stofnaður 300 milljóna króna sjóður sem nefnist forvarna- og framfarasjóður Reykjavíkurborgar. Ætlunin er að styrkja verkefni í einstökum hverfum og stuðla að auknum árangri í forvarnarstarfi, uppbyggingu félagsauðs, bættri umgengni, auknu öryggi og markvissara samstarfi Reykjavíkurborgar og frjálsra félagasamtaka í hverfunum eins og segir í tilkynningunni. Reglur sjóðsins verði útfærðar og byggðar á forvarnarstefnu Reykjavíkurborgar.

Samhliða þessu á að efla hverfaráð borgarinnar verulega og er gert ráð fyrir því að þau auglýsi eftir hugmyndum að verkefnum í forvarnastarfi sem unnin verða í samvinnu við þjónustumiðstöðvar borgarinnar. Ráðgjafahópur fer yfir tillögur að verkefnum og að fengnu mati hans geri borgarstjóri tillögur til borgarráðs um styrki úr sjóðnum. Úthlutað verður úr forvarnasjóðnum tvisvar á ári, í apríl og nóvember. Einstök verkefni geta varað frá 3 mánuðum til þriggja ára og verða árangursmetin að minnsta kosti árlega.

Forvarnarsjóður Reykjavíkurborgar sem heyrir undir velferðarráð hefur fram til þessa úthlutað 10 milljónum króna á ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×