Innlent

Aukin menntun kennara kostar sveitarfélögin 900 milljónir

Betur menntaðir kennarar munu kosta sveitarfélögin rösklega níu hundruð milljónir króna á ári - umfram núverandi launakostnað - þegar breytingar í frumvarpi menntamálaráðherra komast að fullu til framkvæmda.

Þegar stór hluti kennara í leik- og grunnskólum verður kominn með fimm ára háskólanám hlýst eðlilega af því mikill kostnaður fyrir sveitarfélögin. Frumvarp menntamálaráðherra kom þó ekki undir á einni nóttu heldur hefur það verið lengi í vinnslu og í góðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Formanni sambandsins, Halldóri Halldórssyni, líst vel á breytingarnar.

Miðað við núverandi stöðu hafa sérfræðingar sambandsins og ráðuneytisins reiknað út að þegar fyrsti árgangur kennara með meistarapróf útskrifast árið 2013 aukist launakostnaður sveitarfélaganna um 155 milljónir.

Þessi aukakostnaður hækki síðan stig af stigi til ársins 2018 þegar talið er að hann nemi um 930 milljónum króna. Náist að manna skólana að fullu með meistaramenntuðum kennurum gæti kostnaðurinn hins vegar hlaupið á einum og hálfum milljarði árlega, að mati sambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×