Innlent

Litlu munaði að Axel sykki við Hornafjarðarós

Eigandi flutningaskipsins Axels segir að minnstu hafa munað að skipið sykki þegar það steytti á skeri skammt frá Hornafirði. Álagið á skipverja hafi verið gríðarlegt og mannlegi þátturinn hafi gleymst. Varðskipsmenn yfirtóku skipið í gærdag og sigldu því til hafnar á Akureyri.

Varðskipið Týr fylgdi Axel til Akureyrar þar sem skipið lagðist að bryggju rétt fyrir klukkan þrjú í nótt. Á ýmsu hefur gengið síðustu daga og eigandi skipsins var ánægður með að skipið væri komið í örugga höfn þegar Stöð 2 ræddi við hann á fjórða tímanum í nótt.

Hann segir að litlu hafi munað að skipið sykki þegar það strandaði við Hornafjarðarós.

Líklegt er að uppskipun úr skipinu hefjist í dag en tryggingafélag skipsins hefur skoðað farminn, frystan fisk, í morgun. Skipið er mikið skemmt eftir strandið og fer til viðgerðar í kví bráðlega. Ekki hefur verið ákveðið hvenær sjópróf fara fram.

Skipstjóri Axels er bundinn þagnareiði þangað til sjóprófum er lokið og eigandi útgerðarinnar vildi í nótt lítið tjá sig um mál vélstjórans og óhlýðni hans við skipstjóra. Hann benti þó á að álagið á áhöfnina hafi verið gríðarlegt síðustu daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×