Innlent

Kennarar hafa þungar áhyggjur af kjaramálum

Á fundi kennara í Digranesskóla í kvöld var samþykkt ályktun þar sem þungum áhyggjum yfir kjaramálum grunnskólakennara er lýst. Fundurinn segir að skólastarfi sé stefnt í verulega hættu með fáránlega lágum launum.

Ályktunin í heild sinni:

Fundur kennara við Digranesskóla lýsir yfir þungum áhyggjum af kjaramálum grunnskólakennara. Skólastarfi er stefnt í verulega hættu með fáránlega lágum launum sem valdið hafa flótta úr stéttinni.

Í nýlegu fréttabréfi frá Kjararannsóknarnefnd (KOS) kemur fram að kaupmáttur launa grunnskólakennara og skólastjóra í Reykjavík hefur rýrnað um 5,6% frá árinu 2005 á meðan kaupmáttur almennt, mældur með launavísitölu Hagstofunnar, hefur vaxið um rúm 8% fram á mitt ár 2007. Grunnskólakennarar hafa því dregist verulega aftur úr viðmiðunarstéttum.

Kennarar við Digranesskóla skora á Bæjarstjórn Kópavogs að nýta sér þann möguleika að semja sérstaklega við grunnskólakennara Kópavogsbæjar. Vísum við í yfirlýsingu Samninganefndar Félags grunnskólakennara:

Félag grunnskólakennara er tilbúið að ræða við LN eða einstök sveitarfélög um gerð kjarasamninga og/eða vinnustaðasamninga.

Kennarar í Digranesskóla hafa fengið nóg af því að þurfa stanslaust að standa í kjarabaráttu og reyna að draga viðmiðunarhópa sína uppi í launum í lok hvers samningstímabils. Það er ekki bjóðandi að í landinu er verið að borga kennurum laun sem eru með þeim allra lægstu í OECD löndunum eins og komið hefur í ljós. Það getur ekki verið í þágu menntunar.

Kennarar í Digranesskóla, Kópavogi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×