Innlent

Hellisheiði opin á ný

Frá slysstað.
Frá slysstað.

Lögregla hefur hleyop umferð á að nýju á Suðurlandsvegi. Banaslys varð vestan við Litlu Kaffistofuna skömmu fyrir klukkan tvö í dag og var veginum lokað í nokkra tíma vegna þess. Að sögn lögreglu virðist svo vera sem ökumaður fólksbifreiðar hafi ekið yfir á öfugan vegarhelming og lent þar framan á vinstra framhorni vörubifreiðar, sem var fulllestuð af malarefni, á leið vestur. Ökumenn voru einir í bifreiðum sínum og er talið að ökumaður fólksbifreiðarinnar, karlmaður á áttræðisaldri, hafi látist samstundis. Ökumaður vörubifreiðarinnar slasaðist óverulega.

Vegurinn var blautur þegar slysið átti sér stað en engin hálka. Orsök slyssins er ókunn en rannsóknardeild lögreglunnar á Selfossi fer með rannsókn og hefur kallað sér til aðstoðar sérfræðinga til að mæla upp vettvang, rannsaka ökutækin og reikna út ökuhraða. Starfsmenn Rannsóknarnefndar umferðaslysa komu á vettvang og fara með sjálfstæða rannsókn.

Lögreglan á Selfossi biður alla þá sem voru vitni að slysinu, aðdraganda þess eða búa yfir einhverjum upplýsingum sem að gagni geta komið að hafa samband í síma 480 1010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×