Innlent

Sex mánaða fangelsi fyrir árás með glerflösku

Hæstiréttur staðfesti í dag hálfs árs fangelsisdóm héraðsdóms yfir karlmanni sem ákærður var fyrir líkamsárás. Manninum var gefið að sök að hafa slegið annan karlmann með glerflösku í andlitið þannig að hún brotnaði og fórnarlambið hlaut tvo alldjúpa skurði fyrir ofan vinstra auga.

Fyrir Hæstarétti lýsti ákærði því yfir að hann undi úrskurði héraðsdóms um sakfellingu að öðru leyti en því að hann neitaði að hafa slegið manninn í andlitið með glerflösku. Með vísan til framburðar tveggja vitna og vottorð læknis var talið sannað að hann hefði slegið fórnarlambið með glerflösku en hins vegar þótti ekki sannað að flaskan hefði brotnað. Auk fangelsisdómsins var maðurinn dæmdur til að greiða fórnarlambi sínu rúmar 270 þúsund krónur í skaðabætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×