Innlent

Sjómenn sárreiðir stjórnvöldum

Sævar Gunnarsson, formaður Sjómannasambands Íslands, og félagar hans í sambandinu eru mjög reiðir stjórnvöldum.
Sævar Gunnarsson, formaður Sjómannasambands Íslands, og félagar hans í sambandinu eru mjög reiðir stjórnvöldum. MYND/Valli

Sjómenn eru sárreiðir stjórnmvöldum fyrir að gleyma þeim við undirbúning mótvægisaðgerða vegna niðurskurðar á þorskveiðiheimildum.

Í ályktun sem samþykkt var á formannafundi Sjómannasambands Íslands um helgina er ríkisstjórnin átalin harðlega fyrir hafa ekki gert minnstu tilraun til að hafa samráð við samtök sjómanna um aðgerðir til mæta skerðingu á þorsveiðiheimildum um 60 þúsund tonn.

Ekki geti farið milli mála að skerðing veiðiheimildanna hafi veruleg áhrif á atvinnu- og tekjumöguleika sjómanna og áhrifin séu meiri en á flestar aðrar stéttir í landinu. Eru sjómenn sárreiðir stjórnvöldum fyrir að sýna stéttinni ekki meiri sóma en raun ber vitni þegar erfiðleikar steðji að.

Fundurinn samþykkti einnig ályktun um þyrlumál og skorar á Alþingi að koma á fót björgunarþyrlusveit á Akureyrarflugvelli. Það sé mikilvægt öryggisatriði um leið og starfsemi Fjórðungssjúkrahússins verði efld. „Það er gríðarlega mikilvægt fyrir norðan- og austanvert landið og hafsvæðið út af því enda um stórt svæði að ræða og getur nálægð við þyrlubjörgunarsveit skipt miklu máli á ögurstund,“ segir að endingu í ályktuninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×