Innlent

Saga skammlífs meirihluta

Kristján Már Unnarsson skrifar

Þetta er í fyrsta sinn í sögu borgarstjórnar Reykjavíkur sem meirihlutasamstarfi er slitið áður en kjörtímabil er úti. Litlu munaði þó að slíkt gerðist á stríðsárunum þegar Árni Jónsson frá Múla yfirgaf Sjálfstæðisflokkinn en meirihluti hans hélt þó velli út tímabilið með stuðningi kommúnista, samkvæmt upplýsingum Guðjóns Friðrikssonar sagnfræðings. Borgarstjórnarmeirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks nú lifði í sextán mánuði.

Saga þessa skammvinna meirihluta var sem sagt þessi. 27. maí 2006 voru borgarstjórnarkosningar, þar sem R-listinn féll. 29. maí ná Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur samkomulagi um myndun meirihlutans og hálfum mánuði síðar sest hann að völdum, þann 13 júní, og Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson er kjörinn borgarstjóri. Ellefu mánuðum síðar, þann 17. maí í vor, er ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks slitið, og nú hafa aðeins fimm mánuðir liðið frá því borgarstjórnarmeirihluta þessara sömu flokka er einnig slitið.

Samdægurs er tilkynnt um myndun nýs meirihluta, Samfylkingarinnar, Vinstri grænna, Framsóknarflokks og F-lista, og að Dagur B. Eggertsson verði borgarstjóri. Borgarstjórnarkosningarnar í fyrravor reyndust sögulegar að því leyti að þá féll meirihluti R-listans eftir tólf ára valdasetu. Strax á sunnudagsmorgni eftir kjördag boðaði leiðtogi Samfylkingarinnar, Dagur B. Eggertsson, fulltrúa R-listaflokkanna til fundar með Ólafi F. Magnússyni, fulltrúa F-lista Frjálslyndra og óháðra og freistaði þess þannig að endurvekja R-listann með stuðningi F-listans. Ólafur kaus hins vegar að hefja sama dag viðræður við Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson um myndun meirihluta D-lista og F-lista og áttu þeir tvo fundi á sunnudeginum.

Samtímis voru sjálfstæðismenn í þreifingum við bæði vinstri græna og framsóknarmenn og varð úr að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hófu meirihlutaviðræður á heimili Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, fráfarandi borgarfulltrúa. Á mánudegi tilkynntu svo oddvitar flokkanna, þeir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Björn Ingi Hrafnsson, um að þeir hefðu náð samkomulagi um að mynda nýjan meirihluta. Þeir tóku sér góðan tíma til að mynda meirihlutann en athygli vakti að það voru fyrst og fremst þeir tveir sem stóðu í viðræðunum. Það var svo þriðjudaginn 13. júní sem nýr meirihluti flokkanna tók formlega við völdum.

Þar með réðu þessir tveir flokkar bæði Reykjavíkurborg, langstærsta sveitarfélagi landsins, sem og landstjórninni, því þeir voru einnig saman í ríkisstjórn. Á því varð breyting eftir þingkosningarnar í vor þegar sjálfstæðismenn slitu ríkisstjórnarsamstarfinu við Framsóknarflokk og völdu Samfylkinguna í staðinn. Nú eru það hins vegar framsóknarmenn sem kasta sjálfstæðismönnum úr valdastólum, með því að slíta borgarstjórnarmeirihlutanum, aðeins sextán mánuðum eftir að hann var myndaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×